Tilkynning um göt á sjókví í Tálknafirði

Eldiskvíar í Tálknafirði
Eldiskvíar í Tálknafirði

Klukkan níu í morgun voru starfsmenn Arnarlax við reglubindið eftirlit við sjókvíar í Tálknafirði þegar þeir urðu varir við göt á netpoka. Sérhæfðir kafarar koma á svæðið skömmu síðar og við nánari skoðun komu í ljós tvö göt á kvínni. Annað gatið var 100*50 cm og hitt 100*70 cm.

Atvikið  var tilkynnt til Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Fiskistofu um leið og götin á kvínni komu í ljós.  Strax voru viðbragðsáætlanir virkjaðar og farið í viðeigandi aðgerðir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fiskur slyppi úr kvínni og reknet voru lögð út við kvínna.   Allar aðgerðir vegna atviksins eru unnar í samráði við Matvælastofnun og Fiskistofu.

Búið er að kafa í aðrar kvíar á svæðinu og reyndust þær í lagi og er því um einangrað atvik að ræða. Ekki er vitað hvað orsakaði götin en töluverð vinna hefur verið við þessa tilteknu kví sem hugsanlega gæti orsakað atvikið.

Fiskurinn í kvínni er fremur stór og er meðalþyngd hans um 3,5 kg.  Enn liggur ekki fyrir hversu margir fiskar hafa sloppið en þessi tilkynningin verður uppfærð eftir því sem meiri upplýsingar berast.

Uppfært kl 20.58: Í dag hefur verið unnið að rannsóknum á því hvað kann að hafa orsakað göt á sjókví í Tálknafirði.  Niðurstöður liggja ekki fyrir en flest bendir til að bilun hafi komið upp í upphífingakerfi netapoka með þeim afleiðingum að rof myndaðist í netinu og göt komu á kvínna. Starfsmaður frá Fiskistofu og annar frá Matvælastofnun eru væntanlegir til ráðgjafar og eftirlits með aðgerðum á svæðinu.  Tilkynningin verður uppfærð jafnóðum og nýjar upplýsingar berast.

Uppfært kl 12:49, 8 júlí 2018: Klukkan 21:00 í gærkvöldi (7 júlí) vitjaði sérfræðingur Fiskistofu neta sem lögð voru með ströndinni í Tálknafirði í námunda við eldisstöðina. Enginn lax var í netunum þar en einn lax fannst í netunum sem lágu við eldiskvínna sjálfa. Ákveðið var að bæta við fleiri netum innar í firðinum og klukkan 9:00 í morgun (8. júlí) var svo aftur vitjað í öll net á svæðinu sem öll reyndust tóm.
 
Öll net við ströndina í Tálknafirði hafa verið fjarlægð en áfram verða 12 net úti við kvínna en heildarfjöldi neta í aðgerðum Arnarlax og Fiskisstofu voru þegar mest lét um 20 talsins víðsvegar í Tálknafirði og heildarfjöldi laxa sem veiddist voru í heildina 3. Það er því fyrsta mat fyrirtækisins að ekki sé um stóra sleppingu að ræða þó áfram verði leitað eftir laxi á svæðinu.
 
Von er á sérfræðingum frá Matvælastofnun á morgun (mánudaginn 9 júlí) þar sem farið verður yfir tjónið á netpoka og áfram unnið að upplýsa um orsök óhappsins.
 
Arnarlax vill þakka Fiskistofu fyrir faglega verkstjórn og góð samskipti ásamt því að þakka starfsfólki Arnarlax fyrir rétt og skjót viðbrögð.  Öllum verkferlum var fylgt og allar viðbragðáætlanir virkuðu eins og skildi.